2.9.2009
Honda V4 full af nýjungum
Honda er að undirbúa kynningu á nýjum V4 hjólum sem eiga að koma í staðinn fyrir VFR og Pan European sport/ferðahjólin. Mótorinn er nýr, 1200 cc V4. Meðal nýjunga þar er Displacement-On-Demand (eins og þekkt er í V8 Hemivélinni frá Chrysler/Jeep) sem þýðir að strokkar (sprengirými) eru virkjaðir eftir aflþörf, í krúsi eru 2 af 4 strokkum virkir en ef þörf er á meiru afli þá fara 1 eða 2 til viðbótar í gang. Mótorinn er því tvistur, þristur eða fjarki, eftir þörfum. Sparar bensín á langferðum. Maður spyr sig samt hvenær það var eitthvað aðalatriði í hjólatúrum. Mótorinn á að hafa svipaðan crossplane sveifarás eins og nýi Yamma R1 mótorinn sem á að þýða betra tog á lægri snúningi. Sögur um að mótorinn (með ram-air hjálp) gefi um 200 hesta. Slagur við Busu? Einnig verður tvöföld kúpling eins og VW/Porsche er með í sínum sportbílum þar sem kúplingin gerir ráð fyrir næsta gír þannig að kassinn virkar sem sjálfskipting. Þarna verður völ á þrem skiptimöguleikum, Drive, Manual og Sport. Hjólin eru í prófun eins og er en væntanlega verða þau kynnt fljótlega eða á EICMA í Milano í nóvember. Myndbandið, sykruð auglýsing frá Honda, er (kannski) þess virði að berja augum og eyrum því í lokin má heyra hvernig þessi mótor hljómar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.